Samþykktir

 

Samþykktir Sorpstöðvar Suðurlands

 

 1. Markmið og hlutverk

  1.1
  Sorpstöð Suðurlands, skammstafað SOS, er byggðasamlag sveitarfélaga á Suðurlandi og fyrirtækja í þeirra eigu í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Heimili þess og varnarþing er að Austurvegi 56 á Selfossi. 

  1.2
  Markmið Sorpstöðvar Suðurlands er:
  a. Að annast förgun sorps fyrir aðildarsveitarfélög og fyrirtæki sem þar starfa.

  b. Að kappkosta að starfseminni sé ávallt hagað þannig að hún uppfylli ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis um förgun sorps.

  c. Að framkvæma gjaldskrárstefnu með þeim hætti að sveitarfélög og aðrir viðskiptaaðilar á Suðurlandi njóti hagkvæms reksturs.

  d. Að stuðla að þróun hagkvæmrar sorphirðu á þann hátt að flokkun og endurvinnsla aukist samfara minnkun þess sorps sem til förgunar fer.

  e. Að haga starfseminni þannig að hún verði ávallt í fararbroddi og sátt við umhverfið.

  1.3
  Til að ná markmiðum sínum er Sorpstöðinni heimilt að eignast hlut í öðrum fyrirtækjum sem starfa á sviði úrgangsmála. Ákvarðanir um hlutafjárkaup skulu þó njóta stuðnings a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi eða félagsfundi byggðasamlagsins.

 2. Um aðalfund

2.1
Aðalfund Sorpstöðvar Suðurlands skal halda fyrir lok októbermánaðar ár hvert á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Á kosningaári sveitarstjórna skal halda hann að loknum kosningum en þó eigi síðar en 15. september. Yfirumsjón og formlegur undirbúningur ársþings er í höndum stjórnar SASS.

2.2
Félagafund skal boða ef þörf krefur að mati stjórnar eða ef þriðjungur aðildarsveitarfélaga krefst þess skriflega. Sömu reglur gilda um þá og reglulega aðalfundi.

2.3
Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands semur dagskrá aðalfundar og skal hún send þingfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfundinn og skulu aðildarsveitarfélög hafa tilkynnt um fulltrúa á aðalfund fyrir þann tíma. Með aðalfundarboði skal senda tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, endurskoðaða ársreikninga, ársskýrslu stjórnar Sorpstöðvarinnar, skýrslur starfsnefnda, tillögur stjórnar og tillögur sem borist hafa frá aðildarsveitarfélögunum.

2.4
Aðalfundur mótar stefnu Sorpstöðvarinnar og ákveður hvaða mál skuli lögð mest áhersla á fram að næsta aðalfundi. Á aðalfundi er afgreidd skýrsla um liðið starfsár, endurskoðaðir reikningar og tillaga að fjárhagsáætlun og gjaldskrá fyrir næsta ár. Stjórn félagsins skal kosin, endurskoðendur eða skoðunarmenn kosnir og umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál, sem löglega eru upp borin.

2.5
Tillögur og ályktanir sem hljóta eiga afgreiðslu á aðalfundi skal senda stjórn 3 vikum fyrir aðalfund. Enga ályktun eða tillögu má bera upp til samþykktar, nema hún hafi verið kynnt með fundarboði á fundinn.

 1. Um kosningar til aðalfundar

3.1
Á aðalfundi Sorpstöðvarinnar eiga sæti einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi/eignaraðila. Einnig eiga seturétt á aðalfundi stjórnarmenn Sorpstöðvarinnar og framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga/fyrirtækja með málfrelsi og tillögurétti séu þeir ekki kjörnir fulltrúar.

3.2
Kjörgengir á aðalfund eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga, sveitarstjórnarmenn og varamenn þeirra. Sveitarstjórnarmaður missir kjörgengi sitt á næsta aðalfundi eftir að hann hættir setu í sveitarstjórn.

3.3
Aðalfundur er opinn öllum sveitarstjórnarmönnum aðildarsveitarfélaga, sem áheyrnarfulltrúum.

 1. Um kosningar á aðalfundi

4.1
Á aðalfundi ræður einfaldur meiri hluti atkvæða. Atkvæðamagn skal vera í samræmi við eignaraðild. Eignaraðild reiknast út frá íbúafjölda liðins árs og hreinni eign SOS miðað við síðastliðin áramót. Samþykktum byggðasamlagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta aðildarsveitarfélaga/fyrirtækja.

4.2
Á aðalfundi skal kosin 5 manna stjórn Sorpstöðvarinnar og 5 til vara. Varamenn skulu kosnir sérstaklega fyrir hvern aðalmann. Aðalfundur kýs beinni kosningu úr þessum hópi formann og varaformann .Breyting frá aðalfundi 2010.

4.3
Fundargerðir og fundarsamþykktir aðalfundar skal færa í sérstaka gerðabók og jafnframt gerð grein fyrir öðru því sem gerist á aðalfundi. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði ef þess er kostur en heimilt er að fela fundarstjóra og fundarritara að ganga frá fundargerðinni. Setja skal Sorpstöðinni sérstök aðalfundarsköp sem aðalfundur þarf að samþykkja.

 1. Um stjórn og starfslið

5.1
Stjórnin er málsvari Sorpstöðvarinnar á milli aðalfunda og fylgir fram samþykktum stjórnarfunda og aðalfundar. Stjórnin vinnur að stefnumarkandi málum og gerir tillögur um ný mál, er leggja skal fyrir aðalfund til ákvörðunar. Stjórnin fer jafnframt með yfirstjórn á rekstri Sorpstöðvarinnar og ber ábyrgð á rekstur hennar sé innan ramma þeirra fjarheimilda sem aðalfundur hefur samþykkt.

5.2
Stjórnarfundi skal halda eftir þörfum en eigi sjaldnar en 6 sinnum á ári og er stjórnarfundur lögmætur sé meiri hluti stjórnar mættur. Þar ræður einfaldur meirihluti atkvæða.

5.3
Stjórn SOS ræður framkvæmdastjóra til fimm ára, markar starfssvið hans og launakjör og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning og skal ráðning hans miðuð við áramót. Aðra starfsmenn ræður framkvæmdastjóri. Heimild stjórnar þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða. Um starfskjör starfsmanna Sorpstöðvarinnar fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamnings. Allar ráðningar skulu vera innan ramma markaðrar sameiginlegrar launa- og starfsmannastefnu, sbr. grein 5.6.

5.4
Framkvæmdastjóri veitir skrifstofu Sorpstöðvarinnar forstöðu og annast framkvæmd málefna eftir því sem stjórn ákveður og hefur á hendi reikningsskil, fjármálastjórn og starfsmannastjórn. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi og stjórnarfundum.

5.5
Framkvæmdastjóri skal að jafnaði boða stjórnarfundi í samráði við formann stjórnar. Telji formaður stjórnar að óeðlilegur dráttur sé á fundarboðun, getur hann hlutast til um fundarboðunina. Framkvæmdastjóra er skylt að leggja fyrir stjórn öll meiri háttar erindi og nýmæli.

5.6
Starfsmanna- og launastefna er sameiginleg með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Skólaskrifstofu Suðurlands. Umsjón og þróun launa- og starfsmannastefnunnar er í höndum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í samráði við stjórnir viðkomandi samlaga. Framkvæmdastjóri SOS ber ábyrgð á að sameiginlegri starfsmanna- og launastefnu verði fylgt. Sértæk starfsmannastefna, sem snýr að fagsviði SOS skal unnin og staðfest af stjórn telji hún þörf á slíkri stefnu.


 1. Um aðild, úrsögn og slit

6.1
Þau sunnlensk sveitarfélög sem óska eftir aðild að Sorpstöð Suðurlands bs., geta keypt sig inn í byggðasamlagið miðað við eiginfjárstöðu þess næstu áramót á undan og íbúahlutfall þeirra af heildaríbúafjölda á starfssvæði stöðvarinnar miðað við 1. des. árið á undan.

6.2
Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í SOS, skal tilkynna það stjórninni eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og taki úrsögnin gildi um næstu áramót á eftir. Á kosningaári skal úrsögn tilkynnast fyrir 1. júlí. Ábyrgðir á skuldbindingum SOS haldast í réttu hlutfalli við aðildartíma og þátttökuhlutfall sveitarfélags í byggðasamlaginu. Hætti sveitarfélag þátttöku í SOS þá skal jafnframt fara fram endurskoðun á samþykktum þessum. Um úrsögn að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

6.3
Byggðasamlagið verður ekki lagt niður nema tveir löglega boðaðir fundir samþykki það með 2/3 hluta atkvæða. Fundirnir skulu haldnir með a.m.k. tveggja mánaða millibili. Tillaga að félagsslitum skal fylgja fundarboði. Áður en seinni fundurinn er haldinn skal afstaða aðildarsveitarfélaga til félagsslitanna liggja fyrir. Til þess að slit á byggðasamlaginu nái fram að ganga þurfa 2/3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga/fyrirtækja að staðfesta þau.

 1. Um breytingar á samþykktum og gildistökuákvæði

7.1
Breyta má samþykktum þessum á aðalfundi ár hvert og skulu tillögur um breytingar á samþykktum fylgja fundarboði. Tillögur til breytinga á samþykktum skulu sendar stjórn þremur vikum fyrir aðalfund.

7.2
Breyting á samþykktum telst samþykkt, ef hún nýtur stuðnings 2/3 hluta aðildarsveitarfélaga/fyrirtækja á lögmætum aðalfundi.

7.3
Samþykktir þessar öðlast gildi við samþykki þeirra.

Þannig samþykkt á aðalfundi Sorpstöðvar Suðurlands 29. október 2015